Loksins, loksins

Í gær fékk ég nokkur góð ráð hér á síðuna sem athugasemdir og mun ég prófa þau og láta ykkur vita af reynslu minni.

Í nótt gekk bara nokkuð vel með svefnöndunartækið mitt en ég fékk að vísu blóðnasir þegar ég ætlaði að fara á fætur en er að öðru leiti nokkuð hress eftir morgunbaðið.

Á morgun fer ég í endurkomu á Lungnadeild 3A í Fossvoginum og vonast þá til að fá svör við spurningum mínum.  Læt ykkur vita.

Ennþá hefur enginn reynt að skrá sig á spjallþráðinn okkar: http://groups.google.com/group/kaefisvefn

Til að taka þátt í spjallinu þá sendu mér póst á netfangið kaefisvefn@gmail.com með upplýsingum um nafn, gælunafn og netfang sem á að nota í spjallinu.


Enn og aftur um kæfisvefninn

Í gær náði ég að halda mér nokkuð vakandi, en fór að dotta yfir myndum kvöldsins.

Fór í rúmið um kl þrjú í nótt.  Mér gekk illa að sofna og gríman pirraði mig í hægri nösina en þraukaði fram á morgun, en þá var ég mjög stíflaður af kvefinu.

Nú bíð ég eftir að heyra frá fagmanni hvort ráðlegt sé að vera með svefnöndunartækið svona stíflaður af kvefi.


Myndir af svefnöndunartæki

Jæja.  Í nótt lét ég taka af mér nokkrar myndir þegar ég var búinn að setja upp græjurnar og tilbúinn að fara að sofa.

Það þarf að vera skráður notandi til að geta séð þær undir Svefnöndunartæki í myndaalbúm.

Þetta hefur kæfisvefninn í för með sér.


Fjórða nóttin með svefnöndunartæki

Ég vil byrja á því að óska ykkur, sem þetta lesið, gleðilegs árs.

Í gær, gamlársdag, ágerðist kvefið og blóðnasirnar.  Mér gekk nokkuð vel með daginn fram á kvöld (sofnaði aðeins yfir Skaupinu í gærkvöldi)  og hélt út til kl 02 í nótt.

Vaknaði einhvern tíman í nótt og leið afar illa, reif af mér grímuna og slökkti á dælunni.

Vaknaði um kl 09 í morgun óhress og sit nú geispandi við tölvuna að skrifa þessar línur.

Kæfisvefn er ekki eitthvað til að hlæja að.


Meiri kæfisvefn

Í nótt var þriðja nóttin mín með „Svefnöndunartæki“ og í kvöld er gamlárskvöld og því þörf á að vera hress og kátur.

 

Nú bregður svo við að ég vakna þreyttur eftir þriðju nóttina og vil ég kenna um nasarkvefi og þar með takmörkuðu loftstreymi um nefgöngin.

 

Í morgun stofnaði ég umræðuþráð á Google um kæfisvefn og bíð ég ykkur sem áhuga hafið að gerast áskrifendur á þráðinn en slóðin er: http://groups.google.com/group/kaefisvefn.


Kæfisvefn

Nú er liðin önnur nóttin frá því ég fékk „svefnöndunartæki (CPAP)“ mitt og ætla ég að reyna að lýsa hér á blogginu mínu reynslu minni af notkun tækisins og framförum mínum.

 

Áður hafði ég gengið í gegnum fyrri hluta nýrrar rannsóknar um Áhrif kæfisvefnsmeðferðar á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma sem unnin er á vegum Lungnadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í samvinnu við Pennsylvaníu háskóla í Bandaríkjunum.

 

Markmiðið með rannsókninni er að skoða áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki hjá einstaklingum með kæfisvefn í samanburði við einstaklinga sem ekki hafa kæfisvefn.  Einnig að mæla sömu áhættuþætti hjá einstaklingum með kæfisvefn aftur eftir 4 mánuði á meðferð með svefnöndunartæki (CPAP) til að sjá hvernig þeir breytast.  Ábyrgðarmaður er Þórarinn Gíslason, yfirlæknir á lungnadeild Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands.

 

En áfram með smjörið:

 

Mánudaginn 28. desember 2009 mætti ég á Lungnadeild 3A á Landspítala Fossvogi til að fá, og verða settur inn í notkun á, svefnöndunartæki.  Tækið sem varð fyrir valinu heitir S8 AutoSet Spirit II og er frá fyrirtækinu ResMed lítið, nett og hljóðlatt.  Með þessu fékk ég grímu sem fer yfir nefið því ég er al skeggjaður og því erfitt með grímu fyrir munn og nef.  Mér var kennt að fara með tækið og setja á mig grímuna og gekk það vel.

 

Þegar ég fór að sofa mánudagskvöldið setti ég grímuna á mig og kveikti á tækinu.  Allt gekk þetta vel, en ég varð að passa mig á að opna ekki munninn því þá fór loftið út um munninn og enginn yfirþrýstingur í öndunarveginum.  Mér gekk illa að sofna eins og ég hafði nú reiknað með en að lokum tókst það nú samt.  Hafði á tilfinningunni að ég væri alltaf að vakna.  Um morguninn þegar ég vaknaði var hægri kinn mín öll löðrandi og óttaðist ég að ég hefði fengið blóðnasir, en mér hafði verið sagt að það gæti verið einn af fylgifiskum meðferðarinnar og ég ekki óvanur að fá blóðnasir af minnsta tilefni.  Við nánari eftirgrennslan var hér um hor að ræða en ekki blóð og trúlega hafði losast um einhverja stíflu í nösinni um nóttina.  Ég vaknaði nokkuð úthvíldur um morguninn en hafði óþægindi í hvirflinum eftir plastólina (stykkið til að stytta í henni) sem gengur afturfyrir höfuðið.  Hélst vel vakandi fram á kvöld sem er afar óvenjulegt hjá mér.

 

Þriðjudagskvöldið lét ég plastólina vera neðar á höfðinu og fann þá ekkert fyrir henni þá nótt.  Ég hafði á tilfinningunni að ég væri alltaf að vakna um nóttina, en um morguninn vaknaði ég nokkuð úthvíldur og var vel vakandi fram á kvöld eins og í gær.

 

Sjáumst á morgun, Gamlársdag!!!

 

Hér fylgja nokkrar krækjur á efni tengt kæfisvefni:

 Kæfisvefn

Syfja og akstur. Gunnar Guðmundsson

Syfja og akstur [ritstjórnargrein]

Syfjaður ökumaður getur verið jafn hættulegur og ölvaður 


Blindrafélagið tekur á móti alþjóðaforseta Lions.

AlþjóðaforsetLions Albert F. BrandelÍ dag, laugardaginn 30. ágúst, tók Blindrafélagið á móti alþjóðaforseta Lionshreyfingarinnar Albert F. Brandel og konu hans Dr. Maureen Murphy í húsakinnum sínum að Hamrahlíð 17.

Alþjóðaforseti og frú eru hér í árlegri heimsókn alþjóðaforseta til Íslands. Al tók við embætti sem alþjóðaforseti á alþjóðaþingi hreyfingarinnar sem haldið var í Bankok í Tælandi nú í sumar

Heimsóknin í Blindrafélagið var vegna Rauðrar fjarðar söfnunar Lions nú í vor, en þá söfnuðust 12,9 miljónir króna sem runnu til Leiðsöguhundaverkefnis Blindrafélagsins

Í móttökunni voru Al og Maureen leidd í allan sannleikann um Leiðsöguhundaverkefni Blindrafélagsins og aðkomu Lionsmanna á Íslandi, og landsmanna allra, að því.

Í söfnuninni, sem stóð yfir 3. til 6. apríl, söfnuðust 12,9 miljónir króna eða sem nemur 42,8 krónum á hvert mannsbarn á Íslandi.  Kostnaður var um 400.000 kr eða 3,1% af söfnunarfé.  Ef við yfirfærum þetta á bandarísk „forhold“ þá þyrftu þeir að safna 51 centi á hvern íbúa og gerði það 155 miljarða ISK og kostnaðurinn þyrfti að vera um 4,8 miljónir USD

Frá Lionshreyfingunni mættu:Alþjóðaforseti Albert F. Brandel og eiginkona hans Dr. Maureen Murphy.  Fjölumdæmisstjóri Daníel G. Björnsson, Lkl. Muninn, Kópavogi og eiginkona hans Jórunn J. Guðmundsdóttir, Lkl. Ýr, Kópavogi.  Umdæmisstjóri 109A Guðrún Björt Ingvadóttir, Lkl. Eik, Garðabæ og eiginmaður hennar Jón Bjarni Þorsteinsson, Lkl. Mosfellsbæjar.  Umdæmisstjóri 109B Árni Viðar Friðriksson, Lkl. Hæng, Akureyri og eiginkona hans Gerður Jónsdóttir.  Frá Rauðrar fjöðurnefnd þeir Guðmundur Rafnar Valtýsson, Lkl. Laugardals, formaður og Sigurjón Einarsson Lkl. Þór, Reykjavík

Að Blindrafélagsins hálfu tóku Kristinn Halldór Einarsson formaður og Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri á móti hópnum. Hér til hliðar í myndaalbúmi má sjá myndir frá athöfninni.

Herrakvöld Lionsklúbbanna Þór og Garðabæjar

Á föstudaginn verð ég á Herrakvöldi Lkl. Þórs og lkl. Garðabæjar og er ég viss um að það verði frábært og þið herrar mínir sem sjáið þetta og langar að mæta, endilega hafið samband við mig.

Set hér upp dagskránna:

 

HERRAKVÖLD

 

LIONSKLÚBBS GARÐABÆJAR

OG

LIONSKLÚBBSINS ÞÓRS

 

GARÐAHOLTI - ÁLFTANESI

29. FEBRÚAR 2008 kl. 19:00

 

DAGSKRÁ:

 

Veislustjóri:

Magnús Hilmarsson

 

Ræðumaður:

Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur

 

Málverkauppboð

Uppboðshaldari:

Anton Holt

 

Skemmtiatriði:

Afro dans

 

Happdrætti:

 

 

Matseðill:

 

Forréttur:

Ylvol nýbökuð snittubrauð, borin fram með smjöri, og pesto.

 

Aðalréttur:

Steikt hunangsgljáð lambalæri með ferskum kryddjurtum,

smjörgljáðar kalkúnabringur og

grísarifjasteik (purusteik)

Meðlæti:

Ristað ferkst grænmeti, steikar kartöflur, gratíneraðar kartöflur, kalkúnarfylling, ferskt ceasar salti með fetaosti, rjómasósa og sveppasósa.

 

Eftirréttur:

Kaffi eins og hver og einn getur í sig látið.

Bollin kostar kr. 300,-

 

GÓÐA SKEMMTUN

 


Varst þú í fermingarárganginum 1992?

 

Árin 1991 til 1994 skipulagði Lionshreyfingin alþjóðlegt átak til þess að berjast gegn blindu í þróunarlöndum, en í Afríku er ótrúlega algengt að börn verða blind, til dæmis af svokallaðri árblindu (River Blindness) sem stafa af sýklum í árvatni, en þessa árblindu er hægt að lækna með sáralitlu fé.

 

Lionsklúbburinn Þór tók þátt í þessari söfnun eins og aðrir lionsklúbbar á Íslandi. Við létum búa til barmmerki til þess að selja til ágóða fyrir söfnunina.  Barmmerkið leit svona út:

 

Okkur datt í hug að  leita til grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu til þess að hjálpa okkur að selja þessi merki.  Við völdum fermingarárganginn, þ.e. 8. bekk grunnskóla og ákváðum að fara í skólana og biðja börnin um að hjálpa okkur í þessu átaki.  Þau fengju ekki greidd nein sölulaun, þau væru bara þátttakendur með okkur að hjálpa börnum í Afríku.   Margir töldu okkur frá að gera þetta, það fengist enginn krakki til að selja merki án þess að fá sölulaun.  En þessar úrtöluraddir reyndust hafa rangt fyrir sér.  Þátttakan var mikil og almenn.  Skólabörnin seldu fyrir rúmar 400 þúsund krónur.  Eftir átakið bauð Lionsklúbburinn upp á diskótek, kók og prins póló í  Tónabæ en það vissi enginn fyrirfram.

 

Ég hef alltaf viljað miðla til þessara fórnfúsu krakka hver árangur varð af söfnuninni.  Nú er að ljúka öðrum áfanga í þessari söfnun og þá liggur fyrir hver árangur varð af fyrri söfnuninni. Þó seint sé, langar mig til að reyna að ná til einhverra sem muna eftir þessu og gleðja þau með því að segja frá hinum ótrúlega árangri sem náðst hefur.

 

27  milljónir hafa aftur fengið sjón, 100 milljónir hafa fengið bætta sjón.  Þið sem tókuð þátt í þessari söfnun getið nú með gleði hugsað til þess, að úti í Afríku eru fjölmargir jafnaldrar ykkar sem eiga það ykkur að þakka að vera sjáandi virkur þjóðfélagsþegn í stað þess að vera þurftarmaður og lifa í myrkri.  Þetta sjónverndarverkefni Lionshreyfingarinnar er eitt besta þróunarátak sem gert hefur verið.  Eitt það besta er, að 80.000 manns hefur verið kennt að meðhöndla augnsjúkdóma í þessum löndum. 

 

Ég vona að einhverjir sem lesa þetta muni eftir þessu átaki og geti glaðst yfir þessum góða árangri.  Sérstaklega hugsa ég til þeirra sem í dag eru þátttakendur í Lionshreyfingunni og taka nú þátt í seinni áfanga þessarar söfnunar.  Þetta átak er verulega þess virði að leggja því lið.

 

Með kveðju og þakklæti.

Fyrir hönd Lionsklúbbsins Þórs

 Gunnar Már Hauksson


Húsið málað

Nú þegar maður er kominn úr þessari fínu ferð um landið þá fara krakkarnir í það stórvirki að mála húsið að utan.  Liturinn sem varð fyrir valinu er Pastel grár og verður húsið örugglega flottasta húsið í götunni.  Tek nokkrar myndir á morgun og set hér ef ég nenni.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband