Varst þú í fermingarárganginum 1992?

 

Árin 1991 til 1994 skipulagði Lionshreyfingin alþjóðlegt átak til þess að berjast gegn blindu í þróunarlöndum, en í Afríku er ótrúlega algengt að börn verða blind, til dæmis af svokallaðri árblindu (River Blindness) sem stafa af sýklum í árvatni, en þessa árblindu er hægt að lækna með sáralitlu fé.

 

Lionsklúbburinn Þór tók þátt í þessari söfnun eins og aðrir lionsklúbbar á Íslandi. Við létum búa til barmmerki til þess að selja til ágóða fyrir söfnunina.  Barmmerkið leit svona út:

 

Okkur datt í hug að  leita til grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu til þess að hjálpa okkur að selja þessi merki.  Við völdum fermingarárganginn, þ.e. 8. bekk grunnskóla og ákváðum að fara í skólana og biðja börnin um að hjálpa okkur í þessu átaki.  Þau fengju ekki greidd nein sölulaun, þau væru bara þátttakendur með okkur að hjálpa börnum í Afríku.   Margir töldu okkur frá að gera þetta, það fengist enginn krakki til að selja merki án þess að fá sölulaun.  En þessar úrtöluraddir reyndust hafa rangt fyrir sér.  Þátttakan var mikil og almenn.  Skólabörnin seldu fyrir rúmar 400 þúsund krónur.  Eftir átakið bauð Lionsklúbburinn upp á diskótek, kók og prins póló í  Tónabæ en það vissi enginn fyrirfram.

 

Ég hef alltaf viljað miðla til þessara fórnfúsu krakka hver árangur varð af söfnuninni.  Nú er að ljúka öðrum áfanga í þessari söfnun og þá liggur fyrir hver árangur varð af fyrri söfnuninni. Þó seint sé, langar mig til að reyna að ná til einhverra sem muna eftir þessu og gleðja þau með því að segja frá hinum ótrúlega árangri sem náðst hefur.

 

27  milljónir hafa aftur fengið sjón, 100 milljónir hafa fengið bætta sjón.  Þið sem tókuð þátt í þessari söfnun getið nú með gleði hugsað til þess, að úti í Afríku eru fjölmargir jafnaldrar ykkar sem eiga það ykkur að þakka að vera sjáandi virkur þjóðfélagsþegn í stað þess að vera þurftarmaður og lifa í myrkri.  Þetta sjónverndarverkefni Lionshreyfingarinnar er eitt besta þróunarátak sem gert hefur verið.  Eitt það besta er, að 80.000 manns hefur verið kennt að meðhöndla augnsjúkdóma í þessum löndum. 

 

Ég vona að einhverjir sem lesa þetta muni eftir þessu átaki og geti glaðst yfir þessum góða árangri.  Sérstaklega hugsa ég til þeirra sem í dag eru þátttakendur í Lionshreyfingunni og taka nú þátt í seinni áfanga þessarar söfnunar.  Þetta átak er verulega þess virði að leggja því lið.

 

Með kveðju og þakklæti.

Fyrir hönd Lionsklúbbsins Þórs

 Gunnar Már Hauksson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband