Kæfisvefn

Nú er liðin önnur nóttin frá því ég fékk „svefnöndunartæki (CPAP)“ mitt og ætla ég að reyna að lýsa hér á blogginu mínu reynslu minni af notkun tækisins og framförum mínum.

 

Áður hafði ég gengið í gegnum fyrri hluta nýrrar rannsóknar um Áhrif kæfisvefnsmeðferðar á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma sem unnin er á vegum Lungnadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í samvinnu við Pennsylvaníu háskóla í Bandaríkjunum.

 

Markmiðið með rannsókninni er að skoða áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki hjá einstaklingum með kæfisvefn í samanburði við einstaklinga sem ekki hafa kæfisvefn.  Einnig að mæla sömu áhættuþætti hjá einstaklingum með kæfisvefn aftur eftir 4 mánuði á meðferð með svefnöndunartæki (CPAP) til að sjá hvernig þeir breytast.  Ábyrgðarmaður er Þórarinn Gíslason, yfirlæknir á lungnadeild Landspítala og prófessor við Háskóla Íslands.

 

En áfram með smjörið:

 

Mánudaginn 28. desember 2009 mætti ég á Lungnadeild 3A á Landspítala Fossvogi til að fá, og verða settur inn í notkun á, svefnöndunartæki.  Tækið sem varð fyrir valinu heitir S8 AutoSet Spirit II og er frá fyrirtækinu ResMed lítið, nett og hljóðlatt.  Með þessu fékk ég grímu sem fer yfir nefið því ég er al skeggjaður og því erfitt með grímu fyrir munn og nef.  Mér var kennt að fara með tækið og setja á mig grímuna og gekk það vel.

 

Þegar ég fór að sofa mánudagskvöldið setti ég grímuna á mig og kveikti á tækinu.  Allt gekk þetta vel, en ég varð að passa mig á að opna ekki munninn því þá fór loftið út um munninn og enginn yfirþrýstingur í öndunarveginum.  Mér gekk illa að sofna eins og ég hafði nú reiknað með en að lokum tókst það nú samt.  Hafði á tilfinningunni að ég væri alltaf að vakna.  Um morguninn þegar ég vaknaði var hægri kinn mín öll löðrandi og óttaðist ég að ég hefði fengið blóðnasir, en mér hafði verið sagt að það gæti verið einn af fylgifiskum meðferðarinnar og ég ekki óvanur að fá blóðnasir af minnsta tilefni.  Við nánari eftirgrennslan var hér um hor að ræða en ekki blóð og trúlega hafði losast um einhverja stíflu í nösinni um nóttina.  Ég vaknaði nokkuð úthvíldur um morguninn en hafði óþægindi í hvirflinum eftir plastólina (stykkið til að stytta í henni) sem gengur afturfyrir höfuðið.  Hélst vel vakandi fram á kvöld sem er afar óvenjulegt hjá mér.

 

Þriðjudagskvöldið lét ég plastólina vera neðar á höfðinu og fann þá ekkert fyrir henni þá nótt.  Ég hafði á tilfinningunni að ég væri alltaf að vakna um nóttina, en um morguninn vaknaði ég nokkuð úthvíldur og var vel vakandi fram á kvöld eins og í gær.

 

Sjáumst á morgun, Gamlársdag!!!

 

Hér fylgja nokkrar krækjur á efni tengt kæfisvefni:

 Kæfisvefn

Syfja og akstur. Gunnar Guðmundsson

Syfja og akstur [ritstjórnargrein]

Syfjaður ökumaður getur verið jafn hættulegur og ölvaður 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband